Fagurlistadeild

Frjáls myndlist

Fagurlistadeild veitir starfsmenntun í frjálsri myndlist. Nemendur fá alhliða þjálfun í hefðbundnum greinum þar sem áhersla er lögð á tæknilega og listræna ögun. Meðal kennslugreina eru: efnisfræði, skissugerð, olíumálun, akrýlmálun, myndgreining, ljósmyndun, grafík, módelteiknun, rými, bóklist, tölvugrafík, hugmyndafræði, fagurfræði og listfræði. Til að hefja nám í deildinni þurfa umsækjendur að sanna hæfni sína í undirstöðugreinum.

Nemendur útskrifast að loknu þriggja ára námi í sérnámsdeildum með því að vinna lokaverkefni innan sérgreinarinnar og skrifa rannsóknarritgerð.

Með prófskírteini fylgir skrá um námsárangur nemenda allan skólaferilinn ásamt umsögn prófdómara um lokaverkefni.

Námseiningar: 180 einingar

Akureyri hefur margt upp á að bjóða m.a. frjótt og skapandi umhverfi sem er ákjósanlegt fyrir fólk í listnámi. Til þess að ná árangri þarf listamaðurinn örvun en líka næði til að vinna úr hugmyndum sínum. Myndlistaskólinn á Akureyri er lítill en góður sjálfstæður skóli með sterkan prófíl sem reynir eftir föngum að laða til sín hæfileikaríka einstaklinga og skapa þeim skilyrði til að þroskast og ná árangri. Markmiðið er að mennta fagfólk með sterkan grunn sem tilbúið er til að takast á við verkefni framtíðarinnar. Námið er einstaklingsmiðað og sveigjanlegt. Skólinn leggur áherslu á að fá sérfræðinga, gott fagfólk og snjalla myndlistamenn til að koma inn og vinna með nemendum að tilteknum verkefnum.

Nemendur útskrifast að loknu þriggja ára námi í sérnámsdeildum með því að vinna lokaverkefni innan sérgreinarinnar og skrifa rannsóknarritgerð.

Með prófskírteini fylgir skrá um námsárangur nemenda allan skólaferilinn ásamt umsögn prófdómara um lokaverkefni.

Námskröfur

Nemandi verður að ljúka hverju námskeiði með fullnægjandi árangri til að fá það metið til eininga og einkunna. Honum ber að stunda nám sitt af alúð og kostgæfni enda miðast kröfur um verkefnaskil við að námið hafi verið stundað án undanbragða og skólatími nýttur til fulls.

Almenna reglan er, að nemendur sérnámsdeilda ljúki samtals 180 einingum á ári. Nemendur geta bætt við námskeiðum og fengið þau metin sem valgrein. Slík námskeið eða önnur geta þó ekki komið í stað skyldunámskeiða. Skólastjórn er heimilt að veita nemanda í sérnámsdeild undanþágu til að flytjast milli ára hafi hann ekki náð fullnægjandi árangri í einu af námskeiðum vetrarins í verklegri grein eða listfræði, enda verði námskeiðið endurtekið að hluta til eða öllu leyti, eftir atvikum, jafn fljótt og við verður komið.

Reglur um lokaverkefni

Nemendur útskrifast að loknu þriggja ára sérnámi með því að vinna lokaverkefni innan sinnar sérgreinar og vinna rannsóknarverkefni, þ.e skrifa sjálfstæða ritgerð um sjálfvalið efni, á grundvelli fagsins. Verkefninu er ætlaður tími í stundaskrá, ritgerðin á haustmisseri og lokaverkefni á vormisseri. Með prófskírteini fylgir skrá um námsárangur nemanda allan skólaferilinn ásamt umsögn prófdómara um lokaverkefni.

Eftirfarandi reglur gilda um lokaverkefni útskriftarnema.

Nemandi velur sér viðfangsefni innan þess ramma sem ákveðinn hefur verið fyrirfram og gerir um það samkomulag við umsjónarkennara og skólastjóra. Nemandi skal vinna sjálfstætt að verkefninu en hafa reglulega samband við umsjónarkennara meðan á vinnu stendur. Við upphaf lokaverkefnis skal liggja fyrir skrifleg greinargerð um val á viðfangsefni, efnistök og úrvinnsluaðferðir auk tímaáætlunar.

Eftirfarandi reglur skulu gilda um mat á lokaverkefni.

Prófdómari skal skipaður af bæjarráði Akureyrar við upphaf lokaverkefnis. Auk hans skipa matsnefnd umsjónarkennari og skólastjóri. Umsjónarkennari getur kvatt til matsnefnd telji hann ástæðu til, t.a.m. ef nemandi vinnur ekki samkvæmt fyrirliggjandi áætlun eða ef árangur uppfyllir ekki þær kröfur sem skólinn gerir. Að lokinni uppsetningu sýningar á lokaverkefnum skal matsnefnd kölluð til starfa. Vægi einkunnar prófdómara skal gilda jafnt og einkunnir beggja fulltrúa skólans. Verði ágreiningur innan nefndarinnar skal úrskurður prófdómara gilda og verður honum ekki áfrýjað. Falli nemandi á lokaverkefni, hefur hann rétt til að endurtaka það samkvæmt samkomulagi við skólastjóra.

Rannsóknarverkefni

Nemendum ber að skila til skólastjóra greinargóðri áætlun um gerð og innihald ritgerðarinnar áður hafist er handa. Að fengnu samþykki leiðsögukennara og skólastjóra skal nemandi vinna sjálfstætt á grundvelli áætlunarinnar. Leiðsögukennari þarf að hafa fengið lokauppkast ritgerðarinnar í hendur 15 dögum fyrir skiladag. Gert er ráð fyrir því að útskriftarnemendur skili ritgerðum sínum þann 10. desember og flytji fyrirlestur um viðfangsefni sitt enda skal tillit tekið til þess við mat á verkefninu. Lögð er áhersla á að nemendur leggi sig fram um að skrifa vandaða fræðilega ritgerð og viðhafi sjálfstæð og frumleg vinnubrögð. Rannsóknarritgerðin skal vera a.m.k 3.000 orð og ber að vanda frágang hennar eftir föngum og gæta þess að merkja tilvitnanir og birta heimildaskrá. Leiðsögukennari þarf að leiðbeina nemandanum um hvernig nálgast beri viðfangsefnið, hvað varðar val á efni og hæfilega afmörkun þess. Einnig er mikilvægt að hann gefi holl ráð um öflun upplýsinga, aðferðir og leiðbeini um úrvinnslu gagna. Mikilvægt er að leiðsögukennari fylgist með framgangi verksins á grundvelli áður samþykktrar áætlunar og hvetji nemandann þegar með þarf. á seinni stigum þarf leiðsögukennari að lesa ritgerðina í handriti og leiðbeina um framsetningu efnis og allan frágang. Leiðsögukennari metur að lokum ritgerðina og skrifar umsögn í samráði við skólastjóra eða staðgengil hans.

Mætingar

í skólanum er full mætingaskylda og ber öllum að mæta stundvíslega. Fari heimilar eða óheimilar fjarvistir einstaks námskeiðs fram úr 10% telst nemandi hafa sagt sig frá námi í viðkomandi námskeiði. Kennara ber að vara nemanda við áður en í óefni er komið. Undantekning frá þessu er þó þegar nemandi vinnur að lokaverkefni og skipuleggur tíma sinn sjálfur. Ef fjarvistir vegna veikinda eða annars hamla viðunandi afköstum og árangri að mati kennara ber að vísa málinu tafarlaust til skólastjórnar sem skal taka ákvörðun um hvað gera skal í samráði við hann. Fjarvistir, hverjar sem ástæðurnar eru, geta aldrei komið í stað náms við skólann.

Alþjóðleg samskipti

Sérnámsdeildir Myndlistaskólans á Akureyri taka þátt í samstarfs verkefnum með öðrum norrænum listaskólum á æðra skólastigi. Meðal verkefna má telja, “Nordiska konstnätverk Skiss”. Hingað koma árlega gestanemar og kennarar í tengslum við samstarf norrænu samstarfsskólanna.

Umsókn um skólavist þarf að berast skólanum fyrir 15. maí 2024 ásamt umbeðnum gögnum og tilskyldum fjölda eigin myndverka. Inntökunefnd áskilur sér rétt til að boða umsækjendur til viðtals dagana 20. til 24. maí, telji hún ástæðu til.

Umsóknarfrestur er til 15. maí 2024

Umsóknareyðublað: Fagurlistadeild.pdf

Upplýsingar í síma: 462 4958