Upplýsingar

Velkomin á skrifstofuna

Myndlistaskólinn á Akureyri er sjálfstæð menntastofnun sem hefur það markmið að veita nemendum þekkingu og þjálfun í hverskonar myndlistar- og hönnunargreinum. Námið miðar að því að nemendur öðlist sérhæfingu og geti unnið sjálfstætt á sínu sérsviði að námi loknu.

Myndlistaskólinn leitast við með starfi sínu að efla áhuga og skilning á menningu og listum.

Myndlistaskólinn kappkostar að örva og auka skilning á mikilvægi skapandi þátta við mótun umhverfisins og gildi þeirra fyrir atvinnulífið.

Markmið

  • að nemendur tileinki sér þekkingu á grundvallarlögmálum og færni í aðferðum lista og hönnunar, til eigin sköpunar og skilnings.
  • að nemendur tileinki sér þekkingu á því menningarlega samhengi sem list og hönnun sprettur úr, á listrænum menningararfi og á helstu stefnum og straumum í listheiminum
  • að nemendur tileinki sér annars vegar hæfni til umfjöllunar um eðli listar og hönnunar og hins vegar færni til að skynja, greina og meta list og hönnun og leggja þannig grunn að persónulegu mati.
  • að miðla, fræða og skýra út viðfangsefnið en gera gera nemendur sjálfa virka í að finna vandann og leysa verkefnin af eigin rammleik.
  • að hlúa sem best að þroskaþrá nemendanna með gagnkvæmu samspili milli þeirra og kennaranna.
  • að nemendur tileinki sér þekkingu á grundvallarlögmálum og færni í aðferðum lista og hönnunar, til eigin sköpunar og skilnings.
  • að nemendur öðlist sem fjölbreyttasta listræna reynslu.
  • að skilgreina og endurmeta reglulega námsáherslur til að gera starfið sem skilvirkast.

Skipulag og stjórnun

Skólastjóri er yfirmaður skólans og æðsti fulltrúi hans gagnvart einstaklingum og stofnunum. Hann ber faglega og fjárhagslega ábyrgð á rekstri skólans og annast eftirlit með daglegum rekstri hans.

Skólastjóri er Soffía Sævarsdóttir

Skrifstofa

Skrifstofustjóri er fulltrúi skólastjóra og vinnur að skipulagningu, skráningu og hefur umsjón með nemendaspjaldskrá auk þess að annast alla almenna afgreiðslu ásamt samstarfsfólki. Starfsfólk annast kynningu á námsframboði og veitir upplýsingar um námstilhögun og veitir ráðleggingar. Starfsfólk skrifstofu hefur umsjón með alþjóðlegum samskiptum. Afgreiðsla er opin frá 13:00 - 16:00 virka daga.

Kennarar

Kennarar við skólann eru vel menntaðir og hafa fullgild réttindi til kennslu. Kennarar skipuleggja og annast kennslu í einstökum greinum eða námskeiðsáföngum. Þeim ber að skila kennsluáætlun á þar til gerðu eyðublaði þremur vikum áður en kennsla hefst og greinargerð um efni og áhöld sem nota á í kennslunni. Nemendur eiga að fá í hendur stutta og greinargóða lýsingu á markmiðum námskeiðsins og þeim kröfum sem gerðar
verða til þeirra.

Gagnasafn

Bóka- og gagnasafns skólans er ákaflega mikilvægt enda mikið notað af nemendum og kennurum. Kjarni safnsins eru sérfræðibækur og handbækur á sviði listasögu, myndlistar, hönnunar og listmenntunar. Einnig er þar að finna geisladiska og myndbönd um listamenn, listasöfn og liststefnur. Safninu er áskrifandi að margvíslegum tímaritum. Gott samstarf er við Amtsbókasafnið og bókasafn Háskólans á Akureyri.

Tölvur og Internet

Myndlistaskólinn á Akureyri hefir átt frumkvæði á sviði nýtækni og nýsköpunar í listum og listmenntum og í skólanum er lögð sérstök áhersla á að nýta stafræna miðla í námi og kennslu. Nemendur hafa afnot af fullkomnum tölvubúnaði og fá tilsögn í að hagnýta sér hina nýju tækni á skapandi hátt.

Grafíkverkstæði

Á undanförnum árum hefir grafíkverkstæði skólans eflst verulega með endurnýjun tækja og áhalda. Þeir nemendur sem lokið hafa grunnnámskeiði í grafík hafa aðgang að verkstæðinu enda markmiðið að stuðla að framgangi þessarar listgreinar innan skólans. Strangar reglur gilda um umgengni og frágang efna.

Húsnæði

Starfsemi Myndlistaskólans á Akureyri fer fram í leiguhúsnæði að Kaupvangsstræti 14.

Barnadeildin er vel búin áhöldum og tækjum enda ávallt verið lögð rækt við þann hluta starfseminnar sem lýtur að börnum og unglingum.